Viðskipti innlent

Samherji kærir stjórnendur Seðlabankans til lögreglu

Birgir Olgeirsson skrifar
Þorsteinn Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Baldvinsson, forstjóri Samherja. Fréttablaðið/Anton Brink
 

Stjórn Samherja hefur kært stjórnendur Seðlabankans til lögreglu vegna meintra brota í starfi í tengslum við rannsókn á Samherja. Ætlar stjórnin einnig að höfða skaðabótamál gegn bankanum.

„Þetta er ekki sú leið sem við hefðum kosið og höfum reynt að forðast en eins og hér hefur verið rakið er hún óhjákvæmileg,“ segir í Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í tilkynningu sem birt er á vef fyrirtækisins.

Þeir stjórnendur sem hafa verið kærðir til lögreglu eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, Arnór Sighvatsson fyrrverandi aðstoðarseðlabankastjóri, Ingibjörg Guðbjartsdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands, Rannveig Júníusdóttir framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands og Sigríður Logadóttir aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands.

„Seðlabankinn hefur nú formlega hafnað beiðni Samherja um sáttafund til að ákvarða bætur og málalok vegna tilhæfulausra aðgerða bankans gegn Samherja sem staðið hafa í rúm sjö ár. Þetta gerir bankinn þrátt fyrir að formaður bankaráðs hafi tjáð Alþingi að hann teldi slíkan sáttafund eðlilegan af hálfu bankans og að umboðsmaður Alþingis hefði auk þess bent á að bankinn ætti að eiga frumkvæði að því að endurgreiða álagða sekt,“ segir Þorsteinn Már í tilkynningunni. 

Seðlabankinn hafi hafnað sáttafundi og ætlar sér ekki að endurgreiða sekt sem lögð var á Þorstein persónulega eða hlutast til um að hún verði greidd. 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×