Erlent

Katrín og Sturgeon ræddu loftlagsmál og Brexit

Heimir Már Pétursson skrifar
Katrín Jakobsdóttir kom til Skotlands í morgun á fyrsta degi þriggja daga heimsóknar hennar til Skotlands og Englands.
Katrín Jakobsdóttir kom til Skotlands í morgun á fyrsta degi þriggja daga heimsóknar hennar til Skotlands og Englands. Halla Gunnarsdóttir
Aðgerðir í loftlagsmálum voru aðalumræðuefni Katrínar Jakobsdóttur og Nicolu Sturgeon fyrsta ráðherra Skotlands á fundi þeirra í Edinborg í dag. Í kvöld sitja þær heiðurskvöldverð vegna heimsóknar Katrínar þar sem íslenskir og skoskir glæpasagnahöfundar verða einnig en ráðherrarnir hafa báðar mikinn áhuga á glæpasögum.

Katrín Jakobsdóttir kom til Skotlands í morgun á fyrsta degi þriggja daga heimsóknar hennar til Skotlands og Englands. Hún fundaði með Nicolu Sturgeon fyrsta ráðherra Skotlands í dag þar sem þær ræddu meðal annars samstarf þjóðanna með Nýsjálendingum og fleirum um samspil efnahagsmála og velsældar.

„Svo ræddum við loftlagsmál. En það hefur vakið mikla athygli að Sturgeon hefur talað um að það sé neyðarástand vegna loftlagsmála. Þau eru auðvitað að fara í miklar aðgerðir vegna loftslagsbreytinga eins og Íslendingar. Þannig að þar gátum við skipst á skoðunum og reynslusögum,“ segir Katrín.

Sturgeon sagði Katrínu enga fundi haldna þessa dagana í Bretlandi án þess að ræða Brexit. Hún lýsti nýlega yfir nauðsyn þess að boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu en Skotar felldu tillögu um sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014.

„Við ræddum það ekki sérstaklega á okkar fundi. En það liggur auðvitað fyrir að það hefur heldur verið ýtt undir þetta. Atburðarásin í kringum Brexit. Þar sem liggur fyrir að töluverður meirihluti Skota kaus gegn útgöngunni árið 2016,“ segir Katrín.

Forsætisráðherra ræddi einnig við forseta skoska þingsins og átti fundi með ráðherra menningarmála, ferðamennsku og alþjóðamála og ráðherra umhverfis- og loftslagsmála í skosku heimastjórninni,  meðal annars um samskipti þjóðanna á sviði menntamála eftir Brexit.

„Ég skynjaði líka ríkan vilja að hálfu Nicolu Sturgeon til að rækta mjög samskiptin við Ísland og Norðurlönd. Þannig að ég held að það sé óhætt að reikna með góðum samskiptum í framtíðinni,“ segir forsætisráðherra.

Þær Sturgeon og Katrín deila áhuga á glæpasögum sem setja sinn svip á hátíðarkvöldverð þeirra í kvöld.

„Þar verða Yrsa Sigurðardóttir og Lilja Sigurðardóttir frá Íslandi og skoskir höfundar sem hafa gert garðinn frægan. Þannig að þetta gæti orðið mjög áhugavert,“ segir Katrín Jakobsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×