Erlent

Bróðir árásarmannsins í Manchester ekki framseldur um sinn

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hasham Abedi er yngri bróðir Salmans Abedi.
Hasham Abedi er yngri bróðir Salmans Abedi.
Fyrirætlanir um að framselja bróður árásarmannsins sem sprengdi sig í loft upp á tónleikum bandarísku söngkonunnar Ariönu Grande í Manchester árið 2017 frá Líbíu til Bretlands hafa verið settar á ís, vegna borgarastyrjaldar sem nú geisar í fyrrnefnda landinu.

Innanríkisráðherra Líbíu, Fathi Bashagha, sagði í samtali við ríkisútvarp Bretlands, BBC, að samþykkt hafi verið að framselja Hashem Abedi til Bretlands á þeim grundvelli að hann er breskur ríkisborgari. Hann er bróðir Salmans Abedi, sem varð 22 að bana og særði 139 í sjálfsmorðssprengjuárás á tónleikum Ariönu Grande í Manchester-Arena tónleikahöllinni í maí 2017.

Stjórnvöld í Líbíu berjast nú við uppreisnarher hermarskálksins Khalifa Haftar og segir ráðherrann forgangsatriði stjórnvalda vera að verja höfuðborgina, Tripoli. Því verður einhver bið eftir framsali Abedi.

„Nú bíðum við. Nú er stríð, allt annað er á bið. Við verðum að bíða uns átökum lýkur,“ sagði Bashagha við BBC.

Abedi var hendtekinn í Líbíu stuttu eftir að bróðir hans framdi árásina í Manchester. Bretar lögðu fram framsalsbeiðni á hendur honum á grundvelli gruns um að hann hafi skipulagt árásina með bróður sínum.

Ríkisstjórn Líbíu hafði áður sagt að áætlað væri að Abedi yrði framseldur fyrir árslok 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×