Erlent

Kom að innpökkuðum hundi sínum eftir Íslandsferðina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nova var hamingjusamur hundur.
Nova var hamingjusamur hundur. Mynd/Kirsten Kinch
Kona frá Dublin hefur hafið herferð fyrir því að hundahóteli sem hún kom hundi sínum fyrir á á meðan hún skrapp í stutta ferð til Íslands verði lokað. Þegar hún sneri aftur frá Íslandi hafði hundur hennar drepist í umsjá hundahótelsins og búið var að pakka hræinu inn í límband.

Kirsten Kinch skrapp í þriggja daga ferð til Íslands frá Dublin um síðustu áramót. Ákvað hún að koma Husky-hundi hennar, henni Nova, fyrir á P&E Boarding Kennels and Catery á meðan hún og fjölskylda hennar dvöldu á Íslandi.

Þegar hún sneri hins vegar aftur á Nýársdag til þess að sækja Novu fékk hún slæmar fréttir. Var henni tjáð að Nova hefði fundist einn morguninn dauð í blóðpolli í búri hennar. Kinch fékk hins vegar áfall þegar jarðneskum leifum Novu var skilað til hennar.

„Henni hafði verið pakkað inn í eitthvað sem ég get aðeins lýst sem kúlu í svörtum poka límt saman með límbandi,“ sagði Kinch í samtali við Evening Standard. „Það er augljóst að henni var ekki sýnd nein ást né umhyggja frá því að hún fannst.“

Kinch sakar eigendur hundahótelsins um vanrækslu og hefur hafið baráttu fyrir því að hundahótelinu verði lokað. Um 70. þúsund undirskriftir hafa safnast vegna málsins. Fjallað er um málið í breskum fjölmiðlum í dag en í samtali við Metro sagði Paddy Cullen, eigandi hundahótelsins, að hundinum hafi verið pakkað inn eftir ráðleggingar frá dýralækni.

„Ég hringdi í dýralækni sem sagði mér að pakka hundinum inn vegna sýkingahættu,“ sagði Cullen sem segist hafa óttast útbreiðslu parvóvírusar.

Kinch segir hins vegar af og frá að hundur hennar hafi verið veikur á einhvern hátt. Hún hafi farið til dýralæknis með hana tveimur dögum áður en hún var innrituð á hundahótelið. Dýralæknirinn hafi metið stöðuna sem svo að óhætt væri að senda Novu á hótelið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×