Erlent

Einn látinn eftir skotárás í Kaliforníu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talið er að hið minnsta 4 hafi særst í árásinni.
Talið er að hið minnsta 4 hafi særst í árásinni. Skjáskot
Karlmaður er í haldi lögreglu eftir að tilkynningar bárust um skothvelli skammt frá sýnagógu, bænahúsi gyðinga, í borginni Poway, skammt frá San Diego í Kaliforníu.

Talsmaður spítala í borginni segir að alls hafi fjórir særst í árásinni, þar af hafi einn látið lífið. Meðal hinna særðu er rabbíninn Yisorel Goldstein sem fékk byssukúlu í höndina.

Borgarstjóri Poway sagði í samtali við fjölmiðla í kvöld að ekki sé talið að nokkur hætta sé enn á ferðum. Hann lýsir árásinni sem hatursglæp sem ekki verði liðinn í borginni.

Árásin átti sér stað um hádegisbil að staðartíma. Páskahaldi gyðinga líkur formlega í dag en óljóst er hvort árásin tengist því með einhverjum hætti.

Poway, sem er rúmlega 30 kílómetra norður af San Diego, er með eina lægstu glæpatíðnina í Kaliforníu. Þar búa um 48 þúsund manns.

Hálft ár er síðan að 11 manns létu lífið í sambærilegri árás í Pittsburgh.

Fréttin hefur verið uppfærð


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×