Fótbolti

Kvennalið Barcelona í úrslit í fyrsta sinn

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sigurmarkinu fagnað
Sigurmarkinu fagnað vísir/getty
Kvennalið Barcelona tryggði sér í dag farseðil í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta þegar liðið vann 1-0 sigur á Bayern Munchen en Barcelona vann fyrri leikinn einnig 0-1 og einvígið því samanlagt 2-0.

Spænska landsliðskonan Mariona Caldentey Oliver gerði eina mark leiksins með marki úr vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Barcelona hélt út þrátt fyrir að leika manni færri síðasta stundarfjórðunginn þar sem franska landsliðskonan Kheira Hamraoui fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt á 74.mínútu.

Þetta er í fyrsta sinn sem spænskt lið kemst í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í kvennaboltanum en Barcelona hefur lagt mikla áherslu á að efla félagið í kvennaíþróttum að undanförnu. Eins og flestir íþróttaáhugamenn vita hefur þetta spænska stórveldi verið í fararbroddi í karlaíþróttum í marga áratugi.

Barcelona mætir annað hvort Chelsea eða ríkjandi Evrópumeisturum Lyon í úrslitum en síðari undanúrslitaviðureign þeirra hefst klukkan 13 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×