Erlent

Þrír lög­reglu­menn á­kærðir vegna dauða Erics Tor­ell

Atli Ísleifsson skrifar
Mál Eric Torell vakti mikla athygli í byrjun ágústmánaðar síðastliðins.
Mál Eric Torell vakti mikla athygli í byrjun ágústmánaðar síðastliðins. Fjölskylda Eric Torell
Búið er að ákæra þrjá lögreglumenn í Svíþjóð sem tóku þátt í lögregluaðgerð sem leiddi til dauða hins tvítuga Eric Torell í Stokkhólmi í ágúst síðastliðnum. Tveir eru ákærðir fyrir brot í starfi og einn fyrir að hafa verið valdur að dauða annars manns.

Málið vakti mikla athygli á sínum tíma, en Torell var einhverfur og með Downsheilkenni. Hann hafði strokið um miðja nótt af heimili föður síns í hverfinu Vasastan með leikfangabyssu sína, en á sama tíma hafði lögreglu borist tilkynning um mann á ferli með sjálfvirkt skotvopn.

Þegar lögreglumennirnir komu að Torell töldu þeir hann vera ógnandi og skutu í heildina 25 skotum að honum. Þrjú þeirra hæfðu Torell og lést hann af völdum sáranna. 

Saksóknarar greindu frá niðurstöðu ítarlegrar rannsóknar sinnar í morgun. Í frétt SVT segir að einn lögreglumannanna hið minnsta hafi hafnað því að hafa gerst brotlegur.

Saksóknari segir að það þyki sannað að leikfangabyssan hafi virst vera raunveruleg. Í þessu tilviki hafi lögeglumennirnir hins vegar ekki tekið stöðuna eftir hvert skipti þar sem þeir skutu til að meta hvort að ástæða væri til að halda því áfram. Þannig hafi það verið óréttlætanlegt að skjóta Torell þegar hann sneri baki við lögreglumönnunum.


Tengdar fréttir

Skutu 25 skotum að Eric Torell

Þrír lögreglumenn í Stokkhólmi skutu alls 25 skotum að Eric Torell, tvítugum manni með Downs-heilkenni, sem lést að kvöldi 2. ágúst síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×