Viðskipti innlent

Taconic keypti fimm prósenta hlut í Arion banka fyrir liðlega 6,5 milljarða

Hörður Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Frank Brosens, stofnandi og eiganda vogunarsjóðsins Taconic Capital.
Frank Brosens, stofnandi og eiganda vogunarsjóðsins Taconic Capital.
Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital keypti í gær tæplega fimm prósenta hlut í Arion banka fyrir liðlega 6,5 milljarða króna. Seljandi hlutabréfanna var eignarhaldsfélagið Kaupþing, stærsti hluthafi bankans.

Taconic Capital, sem átti fyrir kaupin 9,99 prósenta hlut í Arion banka, keypti samanlagt 90,7 milljónir hluta í bankanum sem jafngildir tæplega fimm prósenta hlut miðað við útistandandi hlutafé bankans. Voru kaupin gerð á genginu 72 krónur á hlut og var kaupverðið því ríflega 6,5 milljarðar króna.

Til samanburðar stóð gengi hlutabréfa í bankanum í 77,4 krónum á hlut eftir lokun markaða í gær.

Sem kunnugt er gekk Kaupþing frá sölu á um tíu prósenta hlut í Arion banka, 200 milljónum hluta að nafnverði, í síðustu viku fyrir samtals um fjórtán milljarða króna. Fóru þau viðskipti fram á genginu 70 krónur á hlut.

Rúmlega 86 milljónir hluta voru seldar fjárfestum í gegnum Kauphöllina á Íslandi fyrir samtals um sex milljarða króna en afgangurinn, 114 milljónir hluta, var seldur fjárfestum í gegnum kauphöllina í Svíþjóð.

Eins og fram kom í Markaðinum fyrr í vikunni keypti fjárfestingafélagið Stoðir, sem er í meirihlutaeigu meðal annars Jóns Sigurðssonar, Einars Arnar Ólafssonar, Magnúsar Ármann og Tryggingamiðstöðvarinnar, um þriðjung af þeim tíu prósenta hlut sem Kaupþing seldi í síðustu viku.

Í kjölfar kaupanna er fjárfestingafélagið orðið stærsti íslenski fjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka með um 4,5 prósenta hlut af útistandandi hlutafé bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×