Erlent

Fyrsta ferð flugvélar með lengsta vænghaf í heimi

Birgir Olgeirsson skrifar
Vænghafið er 117 metrar á lengd.
Vænghafið er 117 metrar á lengd. YouTube
Merkisatburður átti sér stað í dag þegar flugvél með lengsta vænghaf í heimi var flogið í fyrsta skiptið. Fyrirtækið sem smíðaði þessa vél heitir Stratolaunch en það var stofnað af Paul Allen, einum af stofnendum Microsoft, árið 2011.

Flugvélinni er ætlað að fljúga með gervitungl í 10 kílómetra hæð áður en gervitunglunum er sleppt og þau fara á sporbraut um jörðu.

Vænghaf vélarinnar er 117 metrar að lengd en það er jafn langt og keppnisvöllur í bandarískum ruðningi.

Ef þróun vélarinnar gengur sem skyldi verður búið að skapa aðferð til að koma gervitunglum á sporbraut sem er mun ódýrari en að skjóta þeim upp með eldflaugum frá jörðu.

Farið var með vélina í 15.000 feta hæð í dag og náði hún 274 kílómetra hraða á klukkustund í jómfrúarferðinni.

Flugmaður vélarinnar var Evan Thomas sem tjáði fjölmiðlum eftir fyrstu ferðinni að það hefi verið mögnuð upplifun að fljúga þessari vél og að hún hafi látið að mestu undan stjórn eins og til var ætlast.

Stratolaunch vill meina að þetta sé stærsta flugvél í heimi en til eru lengri flugvélar, þó þessi státi sannarlega af lengsta vænghafinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×