Erlent

Upplausn í Hollywood vegna kjaradeilna

Birgir Olgeirsson skrifar
David A. Goodman, formaður Samtaka handritshöfunda.
David A. Goodman, formaður Samtaka handritshöfunda. Vísir/Getty
Upplausn ríkir í Hollywood vegna deilna Samtaka handritshöfunda og Sambands umboðsmanna. Viðræður þeirra á milli hafa siglt í strand hvað eftir annað en umboðsmennirnir hafa neitað að samþykkja nýjar reglur sem handritshöfundarnir vilja setja.

Framkvæmdastjóri Sambands umboðsmanna í Bandaríkjununm, Karen Stuart, sagði í bréfi til félagsmanna sinna að forsvarsmenn Samtaka handritshöfunda væru á vegferð sem hefði valdið algjörri upplausn í skemmtanaiðnaðinum,

Samtök handritshöfunda kynnti til sögunnar nýjar reglur fyrir umboðsskrifstofur og skipaði öllum félagsmönnum sínum að reka umboðsmenn sína ef þeir neituðu að skrifa undir. Allar stóru umboðsskrifstofurnar neituðu að skrifa undir og fengu í staðinn fjölda bréfa frá umbjóðendum sínum sem sögðu samstarfi þeirra lokið.

Málið snýst að stórum hluta um viðskiptahætti sem umboðsskrifstofurnar og myndverin hafa stundað síðastliðin ár. Umboðsskrifstofurnar fara með verkefni til myndvera þar sem búið er að setja saman í einn „pakka“ allt það sem þarf til að koma kvikmynd eða sjónvarpsseríu á laggirnar.

Umboðsskrifstofurnar bjóða myndverum pakka sem inniheldur leikara, leikstjóra, sýningaraðila og handritshöfunda. Fá umboðsskrifstofurnar umtalsverða þóknun frá myndverum fyrir að setja saman slíkan pakka, en handritshöfundar vilja meina að þannig hafi kjör þeirra versnað því umboðsskrifstofurnar sjái sér ekki hag í því að semja sérstaklega um betri kjör fyrir þá eina.

Samtök handritshöfunda fóru fram á að umboðsmennirnir hættu þessum „pakka-aðferðum“ og færu aftur í að semja sérstaklega um kjör handritshöfunda fyrir verkefni og fái 10 prósent af þóknun þeirra fyrir.

Verður næsta vika forvitnileg að mati sérfræðinga og gætu þessar deilur haft umtalsverð áhrif á komandi verkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×