Innlent

Hallgrímskirkjuturni lokað í fimm vikur

Birgir Olgeirsson skrifar
Gamla lyftan hefur verið í notkun í fimmtíu ár.
Gamla lyftan hefur verið í notkun í fimmtíu ár. Vísir/Vilhelm
Hallgrímskirkjuturn verður lokaður í fimm vikur á meðan skipt verður um lyftu. Nýja lyftan verður svokölluð öryggislyfta og auk þess hraðari en eldri lyftan sem hefur flutt fólk upp í turninn síðastliðin fimmtíu ár.

Sigríður Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju, segir að turninn verði lokaður frá 23. apríl og er reiknað með að framkvæmdir standi yfir í fimm vikur. Má því búast við að þeim verði lokið um 27. maí gangi áætlanir eftir.

Nýja lyftan er af gerðinni Schindler, líkt og eldri lyftan, en um er að ræða viðurkennda öryggislyftu sem styðst við óháðan aflgjafa og verður hægt að nota ef til eldsvoða kemur.

Nýjan lyftan tekur jafn marga í einni ferð og eldri lyftan, eða sex til átta manns, en hún er helmingi hraðari, kemst 1,6 metra á sekúndu en sú eldri fór einn metra á sekúndu.

Reiknað er með að heildarkostnaður við þessar framkvæmdir verði um fjörutíu milljónir króna.

Helgihald verður óbreytt í Hallgrímskirkju á meðan framkvæmdunum stendur og kirkjan opin að mestu fyrir gesti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×