Erlent

Kona hel­tekin af fjölda­morðinu í Columbine-skólanum fannst látin

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríska alríkislögreglan lýsti eftir konunni Sol Pais. Hún fannst látin fyrr í dag.
Bandaríska alríkislögreglan lýsti eftir konunni Sol Pais. Hún fannst látin fyrr í dag. AP/FBI
Átján ára bandarísk kona, sem alríkislögreglan FBI hafði grunaða um að ætla sér að líkja eftir fjöldamorðið í Columbine-framhaldsskólanum í Colorado, fannst látin í kvöld.

Sérstakur viðbúnaður var í tuttugu skólum í Colorado í gær vegna vegna „trúverðugrar ógnar“, en tuttugu ár verða á laugardaginn liðin frá því að tveir nemendur við skólann frömdu fjöldamorð.

Konan, Sol Pais, ferðaðist frá Miami til Denver í fyrradag þar sem hún keypti sér skotvopn og skotfæri áður en hún lét sig hverfa í fjalllendi fyrir utan bæinn. Lögregla lýst henni sem „sérstaklega hættulegri“.

Jeff Shrader, lögreglustjóri í Jefferson-sýslu, segir vísbendingar um að konan hafi svipt sig lífi, en að sögn bandarískra fjölmiðla fannst konan nærri Denver.

Eitt umtalaðasta fjöldamorðið

Tveir nemendur við Columbine-skólann gengu vopnaðir inn í skólann sinn í hádegishléinu þann 20. apríl 1999 og skutu tólf skólafélaga sína og einn kennara til bana áður en þeir sviptu sig síðan lífi. Fjöldamorðið er eitt það umtalaðasta í bandarískri nútímasögu.

Að sögn lögreglu hafði konan, sem vitað var að var heltekin af fjöldamorðinu 1999, ekki hótað Columbine-skólanum sérstaklega, en alríkislögreglan gaf út viðvörun og lýsti eftir henni eftir að hún ákvað að ferðast til Colorado á þessum tíma og keypt sér vopn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×