Enski boltinn

Jürgen Klopp skilur enn ekkert í heppni Man. United á móti PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp.
Jürgen Klopp. Getty/Robbie Jay Barratt
Margir hafa verið að velta sér upp úr lukkunni sem var í liði með Liverpool á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Knattspyrnustjóri Liverpool er enn að komast yfir heppnissigur Manchester United á móti PSG í Meistaradeildinni.

Manchester United sló Paris Saint Germain út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar með 3-1 sigri í síðari leiknum í París sem fór fram 6. mars síðastliðinn.

Parísarliðið hafði unnið fyrri leikinn 2-0 á Old Trafford en þriðja mark United úr VAR-víti á fjórðu mínútu í uppbótatíma kom enska liðinu áfram á fleiri mörkum á útivelli.

Manchester United dróst síðan á móti Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og er fyrri leikurinn á Old Trafford í næstu viku.





Jürgen Klopp er enn að klóra sig í hausnum yfir þessum tveimur leikjum liðanna og hvernig standi á því að Manchester United er með Liverpool í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Ég hef sjaldan séð lið jafnóheppið og lið PSG í þessum leikjum. Ég horfði á báða þessa leiki og hugsaði: Vá, það á ekki að vera möguleiki að tapa þessu. Þeir voru betri í báðum leikjunum,“ sagði Jürgen Klopp við Canal Football Club en ESPN sagði frá eins og sjá má hér fyrir ofan.

Liverpool spilar fyrri leik sinn í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar á Anfield á þriðjudaginn eftir viku. Mótherji Liverpool er portúgalska liðið Porto.

Liverpool slapp að flestra mati vel en liðið hefði getað lent á móti Manchester City, Barcelona eða Juventus svo einhver lið sé nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×