Erlent

Orðrómur leiddi til átaka

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flóttafólk flýr táragas lögreglu við landamærin.
Flóttafólk flýr táragas lögreglu við landamærin. nordicphotos/AFP
Lögreglu og flóttafólki lenti saman í Grikklandi nærri landamærunum við Norður-Makedóníu. Flóttafólkið hafði safnast saman eftir að orðrómur breiddist út um að landamærin yrðu opnuð fyrir flóttafólki, að því er sagði á vef BBC.

Hundruð höfðu safnast nærri flóttamannabúðunum við bæinn Diavata vegna orðrómsins, sem fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Að sögn grískra fjölmiðla köstuðu flóttamenn steinum og spýtum að lögreglu en lögregla svaraði með táragasi.

Dimitris Vitsas, ráðherra innflytjendamála, sagði í viðtali við gríska ríkissjónvarpið að það væri ekki rétt að landamærin yrðu opnuð.

Samkvæmt Reuters kom sams konar ástand upp í Tyrklandi. Þar handtóku yfirvöld nærri 1.200 flóttamenn sem höfðu safnast saman við landamærin að Grikklandi vegna sögusagna um að landamærin yrðu opnuð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×