Sport

Kristrún og Snorri unnu Íslandsmeistaratitla í hefðbundinni göngu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristrún Guðnadóttir og Snorri Eyþór Einarsson.
Kristrún Guðnadóttir og Snorri Eyþór Einarsson. Mynd/Skíðasamband Íslands
Kristrún Guðnadóttir og Snorri Eyþór Einarsson urðu í dag Íslandsmeistarar í skíðagöngu með hefðbundinni aðferð.

Aðstæður til skíðagöngu voru frábærar á Ísafirði í dag þegar keppni fór fram í 10km göngu kvenna og 15km göngu karla með hefðbundinni aðferð á Skíðamóti Íslands í skíðagöngu. Mikill hraði var á keppendum enda snjórinn þéttur og veðrið lék við viðstadda.

Í kvennagöngunni kom Svíinn Karin Bjoernlinger fyrst í mark á tímanum 29:32 mínútum. Kristrún kom önnur í mark, fyrst Íslendinga og því Íslandsmeistari, á tímanum 30:59.

Anna María Daníelsdóttir varð þriðja á 32:55 mínútum.

Í karlaflokki fóru öll þrjú verðlaunasætin til Íslendinga, en aðeins tveir erlendir keppendur mættu til leiks og lentu þeir í síðustu tveimur sætunum.

Snorri vann keppnina mjög örugglega á 37:35 mínútum, tæpum þremur mínútum á undan Ragnari Gamaliel Sigurgeirssyni sem var annar á 40:22.

Þriðji varð Jakob Daníelsson á 42:18 mínútum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×