Erlent

Grindhvalur dó í SeaWorld vegna sýkingar

Andri Eysteinsson skrifar
SeaWorld sædýragarðurinn hefur verið umdeildur undanfarin ár.
SeaWorld sædýragarðurinn hefur verið umdeildur undanfarin ár. Getty/Matt Stroshane
Sædýragarðurinn umdeildi, SeaWorld í Orlandó í Flórída hefur tilkynnt að einn grindhvala garðsins, Fredi, hafi dáið í garðinum. Í tilkynningunni var greint frá því að Fredi hafi lengi glímt við svæsna sýkingu. BBC greindi frá.

Fredi var flutt í SeaWorld eftir að hafa verið bjargað árið 2011, hvalurinn var einn 31 grindhvala sem strönduðu í Flórída. Úrskurðað var að ekki væri unnt að sleppa henni út í náttúruna og hún því flutt til SeaWorld. Þar var Fredi geymd í átta ár.

Í yfirlýsingu frá garðinum sagði að Fredi yrði saknað, henni hafi verið veitt fyrsta flokks aðstoð og henni gefið líf þegar útlit var fyrir að líf hennar myndi enda á ströndu Flórída.

Um er að ræða annan hvalinn sem drepst í garðinum í ár. SeaWorld hefur legið undir mikilli gagnrýni undanfarin ár. Sér í lagi eftir útgáfu heimildamyndarinnar Blackfish sem gagnrýndi harðlega starfsemi garðsins. Sér í lagi var aðbúnaður háhyrninga garðsins gagnrýndur en skömmu áður hafði einn þeirra drepið þjálfara sinn.


Tengdar fréttir

Framkvæmdastjóri SeaWorld segir af sér

SeaWorld hefur mistekist að lokka til sín gesti í kjölfar frumsýningar heimildarmyndarinnar Blackfish þar sem meðferð garðsins á háhyrningum er harðlega gagnrýnd.

SeaWorld hættir að ala háhyrninga

Með ákvörðuninni er ljóst að þeir háhyrningar sem nú eru í görðunum verða síðasta kynslóð háhyrninga sem verða þar til sýnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×