Erlent

Þjóð­leik­hús­stjóri Sví­þjóðar hættir í kjöl­far hneykslis­máls

Atli Ísleifsson skrifar
Josefin Nilsson lést árið 2016, 46 ára að aldri.
Josefin Nilsson lést árið 2016, 46 ára að aldri. YouTube
Norðmaðurinn Eirik Stubø, leikhússtjóri Dramaten í Stokkhólmi, þjóðleikhúss Svíþjóðar, hefur látið af störfum. Frá þessu var greint í morgun, en fréttirnar koma í kjölfar hneykslismáls sem hefur skekið sænskt menningarlíf síðustu vikurnar.

Mikið hefur verið fjallað um ástandið í leikhúsinu í kjölfar sýningar heimildarmyndarinnar Josefin Nilsson – Älska mig för den jag är, sem sýnd var í sænska ríkissjónvarpinu í síðasta mánuði. Var þar fjallað um líf söngkonunnar Nilsson, sem var meðal annars liðsmaður í sveitinni Ainbusk Singers.

Í myndinni er sagt frá því að fyrrverandi kærasti hennar, hafi fengið að starfa áfram við leikhúsið þrátt fyrir að hafa hlotið dóm fyrir ofbeldi og hótanir í garð Nilsson á tíunda áratugnum. Nilsson lést árið 2016, 46 ára að aldri.

Eirik Stubø.Dramaten
Stjórnendur leikhússins hafa sætt mikilli gagnrýni vegna málsins og ákvað stjórn leikhússins í morgun að Stubø myndi láta af störfum. Sagði stjórnarformaðurinn Ulrika Årehed Kågström að Stubø, sem hefur gegnt stöðunni frá 2015, hafi náð góðum árangri sem leikhússtjóri en þörf væri á nýju upphafi innan leikhússins. Best færi á að það gerist með nýjum manni í brúnni.

Í heimildarmyndinni er maðurinn, sem er leikari, harðlega gagnrýndur. Er þar haft eftir systur Nilsson að hann hafi ítrekað beitt söngkonuna ofbeldi og hótað henni lífláti á þeim tíma sem þau áttu í ástarsambandi.

Maðurinn hlaut á sínum tíma dóm fyrir ofbeldi í garð Nilsson en fékk hann áfram að starfa við leikhúsið allt þar til heimildarmyndin var sýnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×