Erlent

Mueller-skýrslan væntanleg innan viku

Kjartan Kjartansson skrifar
Barr var spurður út í Mueller-skýrsluna þegar hann kom fyrir fjárlaganefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í dag.
Barr var spurður út í Mueller-skýrsluna þegar hann kom fyrir fjárlaganefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í dag. Vísir/EPA
William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, sagðist í dag eiga von á að hann birti skýrslu Roberts Mueller, sérstaka rannsakandans, um meint samráð framboðs Donalds Trump forseta við Rússa innan viku. Hann skýri jafnframt hvers vegna sumir hlutar skýrslunnar hafi verið ritskoðaðir.

Ráðherrann hefur farið yfir skýrslu Mueller síðustu vikur með það fyrir augum að ritskoða hluta hennar sem hann telur sér ekki heimilt að birta opinberlega. Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa krafist þess að fá skýrsluna óritskoðaða í hendur og öll gögn sem hún byggir á að auki.

Barr var spurður út í skýrsluna þegar hann kom fyrir fjárlaganefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í dag en það var í fyrsta skipti sem hann hefur setið fyrir svörum frá því að Mueller skilaði skýrslu sinni í síðasta mánuði, að sögn Washington Post. Sagði hann að upphaflega áætlun hans um að afhenda þinginu skýrsluna um miðjan apríl stæði.

„Þetta ferli hefur gengið mjög vel fyrir sig og upphafleg tímaáætlun mín um að geta birt þetta um miðjan apríl stendur og ég tel, frá mínum sjónarhóli, innan vika, verði ég í aðstöðu til að birta skýrsluna almenningi,“ sagði Barr.

Fram að þessu er það eina sem vitað er um skýrslu Mueller fjögurra blaðsíðna bréf Barr til þingsins þar sem hann dró saman niðurstöðurnar. Barr sagði að Mueller hefði ekki sýnt fram á að framboð Trump hafi lagt á ráðin með Rússum um að hafa áhrif á forsetakosningarnar árið 2016. Mueller hafi ekki mælt með að ákæra Trump fyrir að hindra framgang réttvísinnar en hann hafi heldur ekki getað hreinsað forsetann af sök.

Barr tilkynnti á sama tíma að hann hefði ákveðið að ekki væri ástæða til að ákæra Trump fyrir að hindra framgang rannsóknarinnar. Trump skipaði Barr í embættið eftir að hann rak Jeff Sessions, fyrsta dómsmálaráðherra sinn, eftir þingkosningarnar í nóvember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×