Innlent

Slasaður vélsleðamaður sóttur með þyrlu á Heklu

Kjartan Kjartansson og Sylvía Hall skrifa
Frá Heklu að sumarlagi.
Frá Heklu að sumarlagi. Vísir/Vilhelm
Björgunarsveitir á Suðurlandi voru kallaðar út vegna vélsleðaslyss á Heklu nú í hádeginu. Vélsleðamaðurinn er sagður um tvö hundruð metra frá tindi fjallsins en veður og aðstæður séu góðar fyrir björgunarstörf. Þá sóttu björgunarsveitarmenn göngumann sem örmagnaðist í Esjunni.

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að mikill fjöldi björgunartækja hafi verið á sameiginlegri æfingu björgunarsveita á Austurlandi. Því hafi snjóbílar úr Reykjavík einnig verið kallaðir út vegna vélsleðaslyssins.

Á ellefta tímanum sóttu nokkrar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu göngumann á Esju. Sá gekk hefðbundna leið á Þverfellshorn en kenndi sér meins og treysti sér ekki lengra. Þrír hópar björgunarmanna ásamt sjúkraflutningamönnum náðu í hann um hálfa leið upp á Þverfellshorn.

Göngumaðurinn var borinn á börum niður á bílastæði og kom hópurinn niður um klukkan hálf eitt. Þá átti að flytja hann á sjúkrahús til nánari skoðunar.

Uppfært klukkan 13:40:

Björgunarmenn voru komnir á slysstað á Heklu um klukkan eitt og veittu vélsleðamanninum fyrstu hjálp og hlúðu að honum á vettvangi. Hann var síðar settur um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem hélt af slysstað um klukkan 13:25 og fór með manninn á viðkomandi spítala. 

Björgunarmenn eru enn á vettvangi að huga að samferðarmönnum og vélsleða mannsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×