Erlent

Biden segist ekki telja að hegðun hans sé óviðeigandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Skoðanakannanir hafa bent til þess að Biden sé með mest fylgi mögulegra frambjóðenda í forvali demókrata.
Skoðanakannanir hafa bent til þess að Biden sé með mest fylgi mögulegra frambjóðenda í forvali demókrata. Vísir/EPA
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og líklegur forsetaframbjóðandi demókratar, segist ekki telja að hann hafi hegðað sér á óviðeigandi hátt þrátt fyrir ásakanir samflokkskonu hans um að hann hafi snert hana og kysst gegn vilja hennar.

Lucy Flores, fyrrverandi ríkisþingkona Demókrataflokksins frá Nevada, sagði frá áreitni sem hún telur sig hafa orðið fyrir af hendi Biden árið 2014 í grein sem hún birti á föstudag. Þar segir hún að Biden hafi snert hana á óviðeigandi hátt og kysst hana aftan á höfuðið á kosningafundi.

Talsmaður Biden hafði gefið út yfirlýsingu þar sem hann sagði að hvorki Biden né starfslið hans myndi eftir að atvikið hefði átt sér stað og að þau hafi aldrei orðið þess var að varaforsetinn hefði valdið Flores ónótum.

Í dag birti Biden svo yfirlýsingu í eigin nafni þar sem hann gekkst ekki við ásökunum Flores en sagðist telja að hann hafi aldrei komið fram á óviðeigandi hátt í þúsundum skipta sem hann tók í höndina á fólki, faðmaði það, sýndi því alúð, stuðning eða huggun á fjórum áratugum í opinberum störfum.

„Ef það er gefið í skyn að ég hafi gert það þá mun ég hlusta af virðingu en það var aldrei ætlun mín,“ segir í yfirlýsingunni sem Politico segir frá. Sagðist Biden jafnframt ætla að hlusta á upplifanir kvenna.

Biden er talinn líklegur til afreka í forvali demókrata fyrir forsetakosningarnar á næsta ári þrátt fyrir að hann hafi enn ekki lýst yfir framboði. Búist hefur verið við því að hann geri það.

Nokkrir frambjóðendur í forvalinu, þar á meðal Elizabeth Warren, öldungadeildarþingmaður frá Massachusetts, hafa þegar lýst því yfir að þeir trúi Flores.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×