Fótbolti

Fyrsti sigur strákanna hans Heimis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir og félagar eru í 3. sæti færeysku úrvalsdeildarinnar með fimm stig.
Heimir og félagar eru í 3. sæti færeysku úrvalsdeildarinnar með fimm stig. vísir/valli
Eftir að hafa gert jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum í færeysku úrvalsdeildinni vann HB Þórshöfn sigur á Víkingi í Götu, 3-1, í dag.

Heimir Guðjónsson er þjálfari HB en á síðasta tímabili gerði hann liðið að færeyskum meisturum. Hans menn fóru rólega af stað á þessu tímabili en fyrsti sigurinn kom í hús í dag. Þeir eru í 3. sæti deildarinnar með fimm stig.

Brynjar Hlöðversson var á sínum stað í byrjunarliði HB. Hann fylgdi Heimi til Færeyja í fyrra og hefur verið lykilmaður í liði HB síðan þá.

Leikurinn byrjaði mjög fjörlega og eftir sjö mínútur var staðan 2-1, HB í vil. Hins vegar var aðeins eitt mark skorað á síðustu 83 mínútum leiksins.

Það gerði Símun Samuelsson, fyrrverandi leikmaður Keflavíkur, úr vítaspyrnu á 71. mínútu og innsiglaði sigur HB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×