Sport

Má bjóða þér 50 milljarða framlengingu, herra Trout?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Trout hefur margar ástæður til að brosa þessa dagana.
Mike Trout hefur margar ástæður til að brosa þessa dagana. Getty/Jamie Squire
Bandarískir hafnarboltamenn halda áfram að fá rosalega samninga en enginn þeirra kemst þó nálægt nýjum samningi sem Mike Trout er að gera við Los Angeles Angels liðið.

Mike Trout fær 430 milljónir dollara fyrir tólf ára samning eða um 50,4 milljarða íslenskra króna. Þetta er stærsti samningur sögunnar.

Mike Trout hefur spilað allan sinn feril með Los Angeles Angels en hann kom inn í deildina árið 2011. Hann er orðinn 27 ára gamall og á því enn nóg eftir.





Trout hefur tvisvar sinnum verið valinn bestur í Ameríkudeildinni og fjórum sinnum endaði í öðru sæti í kjörinu á besta leikmanninum. Þarna er því að ferðinni frábær leikmaður sem er af mörgum talinn verða besti hafnarboltaleikmaður sinnar kynslóðar.





Mönnum þótti Bryce Harper vera að skrifa undir risasamning á dögunum þegar hann fékk 330 milljóna samning við Philadelphia Phillies í byrjun þessa mánaðar en það er ljóst að nýr samningur Mike Trout er miklu stærri.

Mike Trout fær um það bil 36 milljónir dollara á ári en það 4,2 milljarðar íslenskra króna. Kappinn þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af peningum á sinni ævi.

Hér fyrir neðan má sjá núverandi stærstu samningana í fjórum stærstu atvinnudeildunum í Bandaríkjunum og þar sést vel að Mike Trout er í allt annarri deild en hinir þrír.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×