Erlent

Karadzic dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir þjóðarmorð

Kjartan Kjartansson skrifar
Karadzic er sagður ekki hafa sýnt svipbrigði þegar dómurinn var kveðinn upp í Haag í dag.
Karadzic er sagður ekki hafa sýnt svipbrigði þegar dómurinn var kveðinn upp í Haag í dag. Vísir/EPA
Áfrýjunardómstóll Sameinuðu þjóðanna lengdi fangelsisdóm yfir Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba, og dæmdi hann í lífstíðarfangelsi í dag. Karadzic hafði hlotið fjörutíu ára dóm vegna fjöldamorðsins í Srebrenica í Bosníustríðinu árið 1995.

Dómararnir tjáðu Karadzic að upphaflegi dómurinn yfir honum árið 2016 hefði verið of vægur í ljósi alvarlega glæpa hans og ábyrgðar hans á þeim, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Karadzic var gefið að sök að hafa skipulagt fjöldamorðið í Srebrenica sem er talið versti stríðsglæpur í sögu Evrópu eftir síðari heimsstyrjöldina. Þar slátruðu hermenn Bosníu-Serba hátt í átta þúsund karlmönnum og drengum af múslimatrú á svæði sem hollenskir friðargæsluliðar áttu að gæta á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Hann var einnig fundinn sekur um að hafa borið ábyrgð á umsátri um Sarajevó. Talið er að tíu þúsund manns hafi látið lífið fyrir hendi leyniskyttna og af völdum sprengjukúlna á þremur árum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Sjálfur hefur Karadzic, sem er 73 ára gamall, vísað öllum ásökunum á hendur sér á bug. Hann hefur fullyrt að hann hafi verið sakfelldur á grundvelli „orðróma“ og að sögur um útskúfun múslima og Króata á 10. áratugnum hafi verið „goðsögn“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×