Innlent

Auka þurfi fjármálafræðslu og stýra aðgengi að lánum

Sighvatur Jónsson skrifar
Umboðsmaður skuldara vekur athygli á vanda ungs fólks vegna smálána.
Umboðsmaður skuldara vekur athygli á vanda ungs fólks vegna smálána. Vísir/Vilhelm
Verkefnastjóri hjá Samtökum fjármálafyrirtækja segir að auka þurfi fjármálafræðslu meðal ungs fólks og stýra aðgengi að lánum. Vandi vegna smálánatöku ungs fólks eykst ár frá ári samkvæmt umboðsmanni skuldara.

Fólk sem leitar til umboðsmanns skuldara á aldrinum 18-29 ára nam 23% af öllum umsækjendum árið 2017. Hlutfallið hækkaði í rúm 27% í fyrra.

Umboðsmaður skuldara hefur áður vakið athygli á vaxandi fjölda ungs fólks sem er í vanda vegna þess að það hefur tekið skyndilán, sem einnig eru kölluð smálán. Verulegt áhyggjuefni sé að enn skuli fjölga í hópi umsækjenda á aldrinum 18-29 ára.

Samtök fjármálafyrirtækja og embætti umboðsmanns skuldara stóðu fyrir ráðstefnu í morgun um ungt fólk og lánamarkaðinn. Á ráðstefnunni var einnig fjallað um nýlega skýrslu stjórnvalda um endurskoðun á starfsumhverfi smálánafyrirtækja.

Kristín Lúðvíksdóttir, verkefnastjóri fjármálafræðslu hjá Samtökum fjármálafyrirtækja, segir að það þurfi að hjálpa ungu fólki að átta sig á fleiri og hraðvirkari leiðum en áður til lántöku.

„Þetta er ekki þessi tími í dag sem fólk fer í útibú og tekur númer. Þetta er hluti af þróuninni og er ekkert sér íslenskt, það kemur mjög skýrt fram í þessari skýrslu. Fundurinn hér í dag er hluti af samtalinu um hvað við getum gert betur til að hjálpa ungu fólki og byrgja brunninn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×