Viðskipti innlent

Síminn ekki stoppað vegna WOW

Birgir Olgeirsson skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Vísir
Síminn hefur ekki stoppað hjá Neytendasamtökunum vegna félagsmanna sem hafa áhyggjur af stöðu sinni vegna WOW air.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir í samtali við Vísi að félagsmennirnir velti stöðu sinni fyrir sér ef allt fer á versta veg með WOW air og hvað gerist fyrir bókanir sem þeir hafa greitt fyrir.

Hafi fólk greitt fyrir flugmiðana með kreditkortum eru allar líkur á endurgreiðslu frá kortafyrirtækjunum þegar og ef ferð fellur niður.

Breki segir að ef fólk hefur greitt með peningum, en debetkortafærslur falla undir þann flokk, eða gjafabréfum sé staðan önnur og væntanlega erfiðara að innheimta það.

Þeir sem hafa greitt með peningum eða gjafabréfum þurfa væntanlega að lýsa kröfum á félagið en ef það fer í þrot þarf að lýsa kröfum í þrotabú þess.

Hann bendir einnig á að óvissuþátturinn sé slæmur fyrir þá sem hafa keypt miða hjá WOW. Það sé jafnvel búið að fá frí frá vinnu og panta sér hótelgistingu. Breki bendir á að hjá hótelunum séu ýmsar reglur sem gilda ef ekki er hægt að nýta gistingu sem hefur verið bókuð.

Hjá þeim hótelum sem bjóða upp á ódýra hótelgistingu er í mörgum tilfellum litlu hægt að breyta en hjá þeim þarf að greiða hærra verð fyrir er oft möguleiki á endurgreiðslu eða breytingu á dagsetningu.

„Það eru ansi margar hliðar á þessum málum og af þessu hefur fólk eðlilega áhyggjur,“ segir Breki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×