Skoðun

Erlendar netverslanir og samkeppniseftirlit 

Valur Þráinsson skrifar
Við mat samkeppnisyfirvalda á samkeppnislegum áhrifum samruna skiptir það samkeppnislega aðhald sem hið sameinaða fyrirtæki mun búa við í kjölfarið miklu máli. Því meira aðhald sem er til staðar, innlent sem erlent, því minni líkur eru á því að samruninn raski samkeppni.

Í nýlegum málum sem hafa verið til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu hefur samkeppnislegt aðhald erlendra netverslana verið tekið til skoðunar.

Kaup Haga á Lyfju

Við rannsókn á fyrirhuguðum kaupum Haga á Lyfju var metið að hversu miklu leyti erlendar netverslanir myndu veita hinu sameinaða fyrirtæki samkeppnislegt aðhald. Þar sem hið sameinaða fyrirtæki hefði öðlast sterka stöðu í smásölu snyrtivara á Íslandi skipti þetta atriði töluverðu máli. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi meðal annars í ljós að fáir smásalar snyrtivara á Íslandi litu á erlendar netverslanir sem sína helstu keppinauta. Af þeim 24 svörum sem bárust nefndi enginn snyrtivörusali hreina netverslun (e. pure online players) sem sinn helsta keppinaut né þann sem kæmi þar á eftir. Endurspeglaðist sú niðurstaða í neytendakönnun sem framkvæmd var fyrir Samkeppniseftirlitið í þessu máli en þar svöruðu um 8% því til að hafa keypt snyrtivörur í erlendri netverslun á síðastliðnum 12 mánuðum. Rannsóknin leiddi í ljós að samkeppnislegt aðhald erlendra netverslana í sölu snyrtivara á þeim tíma sem samruninn var rannsakaður virtist vera takmarkað. Samruninn var ógiltur en samrunaaðilar áfrýjuðu ekki ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.



Kaup N1 á Festi og Haga á Olís

Við rannsókn á samrunum N1 og Festar og Haga og Olís var ekki þörf á því að rannsaka ítarlega það samkeppnislega aðhald sem erlendar netverslanir myndu veita samrunaaðilum í kjölfar samrunanna. Ástæða þess er einföld: Það erlenda samkeppnislega aðhald sem dagvöru- og eldsneytissalar búa við frá erlendum netverslunum er afar takmarkað. Á það við hér á landi sem og erlendis en alla jafna er samkeppni á þessum mörkuðum mjög staðbundin þar sem erfitt er fyrir smásala að flytja þessar vörur þvert á landamæri og svæði, nálægð við neytendur er yfirleitt mikilvæg og oft er þörf á vörunum með mjög skömmum fyrirvara.



Tekið er tillit til erlends ­samkeppnislegs aðhalds

Eins og fram hefur komið metur Samkeppniseftirlitið áhrif erlends samkeppnislegs aðhalds við rannsókn samruna. Ofmeti eftirlitið erlent samkeppnislegt aðhald getur það leitt til þess að of margir samkeppnishamlandi samrunar nái fram að ganga. Sé aðhaldið vanmetið getur það leitt til þess að hlutast sé til um samruna sem ekki skaða samkeppni. Því er mikilvægt að Samkeppniseftirlitið ofmeti hvorki né vanmeti það erlenda samkeppnislega aðhald sem er til staðar í hverju máli hverju sinni. Það þjónar best hagsmunum íslenskra neytenda og fyrirtækja.

Fyrirvari: Skoðanir eru höfundar og þurfa ekki nauðsynlega að endurspegla afstöðu eða stefnu Samkeppniseftirlitsins.

Höfundur er aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×