Viðskipti innlent

Hrafnista tekur við rekstri Skógarbæjar

Atli Ísleifsson skrifar
Frá undirritun samningsins.
Frá undirritun samningsins. Mynd/kom
Hrafnista mun taka við rekstri Skógarbæjar, sem á og rekur samnefnt hjúkrunarheimili við Árskóga í Reykjavík, þann 2. maí næstkomandi. Skógarbær og Sjómannadagsráð, eigandi Hrafnistu, hafa ritað undir samning þessa efnis.

Í tilkynningu segir að rekstur og skuldbindingar starfseminnar muni áfram hvíla hjá Skógarbæ, en Hrafnista taki yfir að stjórna og reka hjúkrunarheimilið. Rebekka Ingadóttir, sem stýrt hefur málum Hrafnistu í Boðaþingi síðustu ár, hefur verið ráðinn forstöðumaður Skógarbæjar frá 1. maí.

„Í dag og á næstunni verða haldnir kynningarfundir fyrir starfsfólk, heimilisfólk og aðstandendur vegna breytinganna þar sem starfsemi og hugmyndafræði Hrafnistu verður kynnt. Mannauðstefna Hrafnistu mun gilda í Skógarbæ líkt og á öðrum Hrafnistuheimilum og engin breyting verður á ráðningarsambandi við starfsfólks sem áfram verður við Skógarbæ.  Starfseminni verður háttað í samræmi við hugmyndafræði Hrafnistu þar sem áhersla er lögð á andlega, líkamlega og félagslega vellíðan íbúanna.

Á samningstímabilinu, sem er til að byrja með til ársloka 2020, verður Hrafnista Skógarbæ sjálfstæður hluti rekstrarsamstæðu Sjómannadagsráðs. Í samningnum felst einnig nýting og rekstur á hluta af húsnæði félagsmiðstöðvarinnar Árskóga sem samtengd er hjúkrunarheimilinu og rekin er af Reykjavíkurborg að hluta. Við lok núgildandi samningstíma endurnýjast samningurinn sjálfkrafa til tveggja ára í senn þar til nýr samningur hefur verið undirritaður eða honum sagt upp með samningsbundnum fyrirvara,“ segir í tilkynningunni.

Hrafnistuheimilin eru með starfsemi á sex stöðum í fimm sveitarfélögum, auk þess sem sjöunda Hrafnistuheimilið tekur til starfa í árslok í Fossvogi í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×