Enski boltinn

Segir að Liverpool sé meira lið en Manchester City og Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil Van Dijk fer fyrir liði Liverpool.
Virgil Van Dijk fer fyrir liði Liverpool. getty/Andrew Powell
Louis van Gaal, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, hefur trú á Liverpool í Meistaradeildinni og er mjög hrifinn af liðsheildinni hjá Jürgen Klopp þó að hann sé enginn sérstakur aðdáandi fótboltans sem Liverpool liðið spilar.

Van Gaal ræddi marga hluti í viðtali við breska ríkisútvarpið og þar á meðal kom hann inn á hvaða lið hann telji að sé það sigurstranglegasta í Meistaradeildinni í ár.

Sigurstrangleg lið eins og Paris Saint-Germain og Real Madrid eru úr leik og Atletico Madrid og Bayern München eru tvö önnur öflug lið sem eru úr leik. England á helming liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Margir telja að baráttan standi á milli liða eins og Manchester City, Barcelona, Liverpool eða Juventus en ekki má heldur gleyma liði Manchester United undir stjórn Ole Gunnar Solskjær. Flestir spá þó Lionel Messi og félögum í Barcelona sigri í Meistaradeildinni í byrjun júní.





Louis van Gaal er hins vegar ekki einn af þeim. Að hans mati er Barcelona ekki sigurstranglegasta liðið af þeim átta sem eru eftir í Meistaradeildinni.

Í viðtalinu við BBC segir Van Gaal að Manchester City sé betra lið en Barcelona og að Liverpool sé síðan betra en þau bæði.

„Fólk heldur að Barcelona sé með besta liðið en svo er ekki. Manchester City og Liverpool eru meira lið en Barcelona og Liverpool er síðan meira lið en City,“ sagði Louis van Gaal.



 

Louis van Gaal ýjar síðan að því að Liverpool vinni Meistaradeildina í ár en segist aftur á móti vona að Manchester City vinni hana.

„Besta liðið á að vinna en ég vona að Manchester City vinni þetta því þeir spila besta fótboltann,“ sagði Van Gaal.

Liverpool mætir Porto frá Portúgal í átta liða úrslitunum Meistaradeildarinnar en Manchester City spilar við Tottenham. Barcelona lenti aftur á móti á móti Manchester United og síðasta viðureignin er síðan á milli Ajax og Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×