Innlent

Kiðlingar boða vor í Húsdýragarðinum

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Fæðing kiðlinga er meðal vorboðanna í garðinum
Fæðing kiðlinga er meðal vorboðanna í garðinum FBL/STEFÁN
Meðal þess sem markar árstíðaskipti í Húsdýragarðinum er nýtt líf í geitahúsi garðsins. Þessir fallegu kiðlingar komu í heiminn í garðinum í gær.

Elstu huðnurnar í garðinum, þær Ronja, Frigg og Garún, hafa nú borið samtals fimm kiðlingum. Allir kiðlingarnir eru samfeðra afkvæmi hafursins Djarfs en frjálsar ástir hafa fengið að þrífast í geitastíunni og Djarfur hefur gengið með huðnunum í allan vetur með þessum fína árangri.

Þessir kiðlingar höfðu enn ekki fengið nafn þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði í gær en þá voru þeir nýstaðnir í lappirnar. Burður gekk að óskum og móður og afkvæmum heilsast vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×