Fótbolti

AIK að stela Kolbeini af Djurgården

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson virðist vera á leið til Svíþjóðar.
Kolbeinn Sigþórsson virðist vera á leið til Svíþjóðar. Getty/Jean Catuffe
Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsframherji í fótbolta, er á leið til sænsku meistaranna í AIK samkvæmt heimildum sænska dagblaðsins Expressen en hann hefur verið í Stokkhólmi í dag og var í skoðunarferð um Vinavelli í Solna þar sem að AIK spilar heimaleiki sína.

Fótbolti.net greindi frá því í gær að Kolbeinn var í heimsókn hjá Djurgården sem vonaðist til að semja við íslenska framherjann en nú virðast Svíþjóðarmeistararnir vera að stela Kolbeini af Djurgården.

Kolbeinn er laus allra mála frá Nantes þar sem að hann hefur ekki spilað að verða í tvö ár vegna meiðsla en íslenski framherjinn hefur verið meira og minna meiddur frá því á EM 2016 þar sem að hann lék stórt hlutverk í ævintýri strákanna okkar.

Expressen segir að gengið verði frá samningi við Kolbein á næstu 24 tímum og að hann verði klár í slaginn með AIK fyrir næstu leiktíð þegar að hann er búinn að skrifa undir.

AIK er eitt allra stærsta félagið á Norðurlöndum í dag en það varð Svíþjóðarmeistari í tólfta sinn á síðustu leiktíð. Það leikur heimaleiki sína á Vinavöllum eða Friends Arena sem tekur 50 þúsund manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×