Erlent

Maður vopnaður sverði skotinn í kirkju Vísindakirkjunnar

Samúel Karl Ólason skrifar
Svo virðist sem að maðurinn hafi einnig verið vopnaður byssu en tveir lögregluþjónar sem sendir voru á vettvang hlutu skotsár.
Svo virðist sem að maðurinn hafi einnig verið vopnaður byssu en tveir lögregluþjónar sem sendir voru á vettvang hlutu skotsár. AP/Reed Saxon
Lögregluþjónar skutu mann til bana sem gekk vopnaður stóru sverði inn í kirkju Vísindakirkjunnar í Inglewood í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Svo virðist sem að maðurinn hafi einnig verið vopnaður byssu en tveir lögregluþjónar sem sendir voru á vettvang hlutu skotsár. Lögreglan hefur þó ekki staðfest að maðurinn hafi verið vopnaður öðru en sverði.

Lögregluþjónarnir eru ekki í lífshættu, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni.



LA Times segir lögregluna ekki hafa sagt hvað gerðist inn í kirkjunni og verið sé að rannsaka hvort maðurinn hafi verið vopnaður skotvopni.

Það sem hefur komið fram er að maðurinn keyrði upp að kirkjunni og gekk þar inn með sverð. Fimm manns voru í anddyri kirkjunnar þegar manninn bar að garði. Hann hefur ekki verið nafngreindur.

Vísindakirkjan hefur sent frá sér tilkynningu þar sem lögreglunni er hrósað fyrir skjót og góð viðbrögð.

Árið 2008 skaut öryggisvörður mann til bana í Los Angeles sem ógnaði meðlimum Vísindakirkjunnar með tveimur sverðum fyrir utan kirkju þar í borg. Sá maður, Mario Mjorski, var fyrrverandi meðlimur kirkjunnar og var hann skotinn af öryggisverði þegar hann hljóp á eftir öðrum verði með sverðið í hendinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×