Erlent

Kviknaði í sögufrægri sautjándu aldar kirkju í París

Andri Eysteinsson skrifar
Saint Solpice kirkjan er byggð í barokk stíl.
Saint Solpice kirkjan er byggð í barokk stíl. Getty/Frédéric Soltan
Eldur kom upp í dag í Saint-Sulpice kirkjunni í 6. hverfi Parísarborgar, fjórir voru inni í kirkjunni þegar eldurinn kom upp. Ekki er vitað um eldsupptök en eldurinn náði að læsa sig í hurð kirkjunnar, steinda glugga kirkjunnar og í stigagang.

Slökkviliðsmenn náðu snögglega á staðinn og slökktu eldinn áður en hann varð einhverjum að skaða. Reuters greinir frá.

Kirkjan var byggð árið 1646 og er byggingin 34 metrar að hæð. Ferðamannastraumur að kirkjunni jókst til muna eftir að bók Dan Brown, Da Vinci lykillinn, kom út árið 2003. Í bókinni liggur rósa-línan um kirkjuna. Erkibiskupsdæmið í París bannaði þó leikstjóranum Ron Howard að taka upp atriði kvikmyndarinnar á staðnum árið 2005.

Í kirkjunni má finna þrjú málverk eftir Eugene Delacroix sem var leiðandi í rómantísku stefnunni í listmálun í Frakklandi á 19.öld. Talið er að þau séu óhult.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×