Viðskipti innlent

Smárabíó yfirtekur efstu hæð Smáralindar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Smárabíó er nú á allri efstu hæð Smáralindar.
Smárabíó er nú á allri efstu hæð Smáralindar. Smárabíó
Kvikmyndahúsið Smárabíó hefur bætt við sig rými í Smáralind. Nú er svo komið að Smárabíó hefur yfirtekið alla efstu hæð verslunarmiðstöðvarinnar. Aukinheldur hefur kvikmyndahúsið tekið við umsjón barnagæslu Smáralindar.

Með stækkuninni færir Smárabíó út kvíarnar og eykur þjónustuframboð sitt töluvert. Til að mynda tekur kvikmyndahúsið við rekstri „lasertag“-vallarins og karaoke-aðstöðunnar sem finna mátti á efstu hæð hússins. Þar að auki segjast aðstandendur kvikmyndahússins vera að taka við leikjasal og barnagæslu verslunarmiðstöðvarinnar sem fyrr segir.

Svo virðist sem töluverð nýsköpun sé í íslenska kvikmyndahúsabransanum þessi misserin. Auk fyrrnefndrar stækkunar Smáralindar má nefna að síðastliðið haust tóku Sambíóin hinn svokallaða lúxussal sinn í Álfabakka í gegn. Búið er að skipta út öllum sætum salarins fyrir upphitanleg nuddsæti, þau fyrstu sinnar tegundur á Íslandi.

Ætla má að þessi þróun sé liður í baráttu kvikmyndahúsanna gegn minnkandi aðsókn undanfarinna ára. Þróunin snérist þó við á síðasta ári, þegar tekjuaukning kvikmyndahúsanna nam 6,4 frá árinu 2017. Þá sóttu tæplega 74.000 fleiri gestir kvikmyndahús á árinu 2018 en 2017, sem er tæplega 5,4% fjölgun. Alls lögðu 1.445.445 gestir leið sína í kvikmyndahús landsins í fyrra. Meðal-Íslendingurinn fór því um fjórum sinnum í bíó á síðasta ári.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×