Skoðun

Skólalóðin, bumbubolti og opinber stjórnsýsla

Þórlindur Kjartansson skrifar
Ein fyrsta samskiptaregla sem krakkar læra er að það er ekki í lagi að hóta því að hætta og fara heim með boltann þegar eitthvað bjátar á í leik. Týpan sem hótar að skemma þannig leikinn fyrir öllum hinum þykir ekki sérlega góður pappír. Samt leynist í okkur öllum einhver angi af þeirri tilfinningu að það megi í hita leiksins segja „Ég á þetta, ég má þetta“. Það er samfélagslegur þrýstingur og vaxandi félagsþroski sem nær að halda þeirri hugsun kyrfilega í skefjum eftir því sem við eldumst. Þegar keppnisskapið nær tökum á manni er nefnilega ekki hægt að ætlast til þess að maður hegði sér algjörlega í samræmi við fyrirframgefnar leikreglur, eða sjái hlutina alltaf í réttu, hlutlausu og sanngjörnu ljósi.

Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að krakkar sem hóta því að taka dótið sitt þegar eitthvað bjátar á læra fljótt að enginn nennir að leika með þeim—jafnvel þótt boltinn sé góður og dótið flott. Allir krakkarnir þurfa að skilja þá hugsun til botns að reglur leiksins sjálfs eru mikilvægari heldur en það hvort þessi eða hinn sigrar—og allir þurfa að læra að hafa þolinmæði fyrir smávægilegum árkestrum, svo lengi sem það fer ekki út í öfgar og skemmir leikinn.

Bumbuboltinn

Þessi grundvallaratriði halda gildi sínu óháð aldri og aðstæðum. Hópar miðaldra manna sem hittast og spila körfubolta einu sinni í viku þurfa að virða óskráð samkomulag um að menn láti ekki kappið hlaupa þannig með sig í gönur að það skapist hætta á meiðslum og slysum. Þar gilda, alveg eins og hjá krökkum á skólalóð, alls konar reglur um hvað sé óásættanleg hegðun—en umfram allt verður að finna hið gullna jafnvægi milli sigurviljans og leikgleðinnar. Leikmenn þurfa að gangast fúslega við því ef þeir brjóta á andstæðingi, viðurkenna sjálfir ef þeim verður á að taka of mörg skref með boltann og þar frameftir götunum. Í „bumbubolta“ og á skólalóð er því að jafnaði ekki gerð tilraun til þess að herma nákvæmlega eftir reglum í dæmdum leik. Í fótbolta án dómara er lítið reynt að leggja mat á rangstöðu. Í götukörfubolta hefur aldrei verið dæmd sóknarvilla og ef minnsti ágreiningur er um hver snerti síðast bolta á leiðinni útaf þá fær sóknin einfaldlega að halda boltanum.

Hinar óskráðu reglur duga til þess að tryggja að flestir geta haft gaman af íþróttaiðkuninni og geta fengið smá útrás fyrir keppnisskap. Sá sem leggur í vana sinn að fussa og sveia þegar sóknin dæmir villu, rífst yfir innköstum eða brýtur harkalega á gömlum mönnum í hægum hraðaupphlaupum hættir fljótlega að fá boð um þátttöku í vinalegum körfuboltaleikjum.

Óskráðu reglurnar fela í sér einhvers konar jafnvægi sem oftast gengur upp—en að sjálfsögðu kæmi aldrei til greina að einn tiltekinn leikmaður eða annað liðið fengi að skera úr um öll ágreiningsatriði. Engum íþróttamanni væri treystandi fyrir öðrum eins völdum.

Dómaranum að kenna

En þegar eitthvað er raunverulega í húfi gengur auðvitað ekki að treysta á að leikmennirnir sjálfir leysi úr því sem orkar tvímælis. Þess vegna eru „alvöru“ leikir ekki spilaðir nema í keppnisbúningum og með dómurum. Við slíkar aðstæður horfir veröldin öðruvísi við leikmönnunum. Þegar ábyrgðin á því að tryggja heiðarleika hefur flust af leikmönnunum sjálfum og yfir á dómarana þá þurfa leikmennirnir ekki að hugsa um neitt annað en að sigra. Ef þeir brjóta af sér þá er það ekki þeirra sjálfra að gangast við brotinu og andstæðingurinn beinir ekki reiði sinni að hinum brotlega heldur krefst þess að yfirvaldið grípi í taumana og refsi fyrir brotið. Þannig hefði Diego Maradona vitaskuld aldrei dottið í hug að viðurkenna að hann kýldi boltann yfir Peter Shilton á heimsmeistaramótinu í Argentínu 1986. Úr því dómarinn sá það ekki, þá var það ekki hendi. Og aldrei á milljón árum hefði Presnel Kimpembe leikmaður PSG viðurkennt að boltinn hefði farið í hendina á sér í leiknum gegn Manchester United í fyrrakvöld—og jafnvel þá hefði hann verið 100% sannfærður um að þar hefði bolti farið í hönd en ekki hönd í bolta. En dómarinn með aðstoð myndbandsupptöku tók ákvörðunina og þar við sat. Að halda að leikmennirnir sjálfir gætu komist að niðurstöðu um málið, með réttlæti og sannleiksást að leiðarljósi, væri augljóslega algjörlega fjarstæðukennd hugmynd.

Blindur metnaður

Þar með er ekki sagt að íþróttamenn sem ekki gangast við brotum sínum séu óvandaðir einstaklingar. Þeirra hlutverk er einfaldlega að hugsa um að sigra. Þannig verður leikurinn skemmtilegastur og bestur bæði fyrir iðkendur og áhorfendur.

Svipuð sjónarmið hafa verið uppi á teningnum þegar réttarríkið var hannað. Í stað þess að treysta einstaklingum til þess að vera heiðarlegir og réttsýnir, þá var hannað kerfi sem gerir ráð fyrir því að jafnvel hið besta fólk blindist af metnaði fyrir þeim verkefnum sem þeim er treyst fyrir og enginn er gerður að dómara í eigin sök. Þess vegna leyfum við til dæmis ekki lögreglunni bæði að handtaka fólk og dæma það til refsingar. Við gerum einfaldlega ráð fyrir því að metnaður lögreglunnar til að koma algjörlega í veg fyrir glæpi sé líklegur til að stuðla að óhóflegum refsingum og ósanngjarnri málsmeðferð. Í því felst ekki að lögreglumenn séu verra fólk heldur en saksóknarar eða dómarar—heldur einfaldlega að allir séu þeir mannlegir og metnaðarfullir um að sinna sínum verkum af trúmennsku.

Böðlast á borgurum

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sagði við þingnefnd í vikunni að það þyrfti að passa upp á að hið opinbera böðlist ekki á borgurunum. Í því fólst auðvitað ekki ásökun um að embættismenn hafi sérstakan áhuga á því að böðlast á borgurunum—heldur einfaldlega viðurkenning á þeim aldagömlu sannindum að fólki er ómögulegt að leggja mat á það hvenær þeirra eigin tilgangur helgar meðölin sem öðrum er gert að innbyrða.

Hið frjálsa spil sem ýmsar stofnanir hins opinbera hafa fengið gagnvart borgurum og fyrirtækjum býður heim stórkostlegri hættu á misbeitingu slíks valds og rangindum sem sett geta líf einstaklinga og rekstur fyrirtækja í langvarandi uppnám, eins og dæmi eru um. Engri stofnun og engum einstaklingi er treystandi til þess að hafa á eigin hendi vald til að setja reglur, rannsaka og refsa. Þetta vita krakkar á skólalóðum, karlar í bumbubolta—og þetta ættu kjörnir fulltrúar okkar borgaranna líka að hafa mjög ofarlega í huga þegar þeir setja stofnunum og embættismönnum valdmörk.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×