Erlent

Norður-Írar vilja mildustu útgáfu Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Áróðursskilti gegn Brexit á Norður-Írlandi.
Áróðursskilti gegn Brexit á Norður-Írlandi. Vísir/EPA
Afgerandi meirihluti Norður-Íra vill að Bretland verði áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins og tollabandalagi eftir útgönguna. Í nýrri skoðanakönnun segjast þeir frekar vilja að tollaeftirlit verði á milli Norður-Írlands og Bretlandseyja en á Írlandi sjálfu.

Umdeildasti hluti útgöngusamnings Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, við Evrópusambandið er svonefnd baktrygging um landamæri á Norður-Írlandi. Breska landsvæðið yrði áfram hluti af tollabandalaginu eftir útgönguna á meðan samið yrði um varanlegt fyrirkomulag til að forða því að setja þurfi upp hefðbundið landamæra- og tollaeftirlit á milli Írlands og Norður-Írlands.

Skoðanakönnun Irish Times bendir til þess að Norður-Írar séu afar óánægðir hvernig breska ríkisstjórnin hefur farið með útgöngumálin. Þrír af hverjum fjórum svarendum telja ríkisstjórnina standa sig illa.

Óánægja þeirra beinist einnig að Lýðræðislega sambandsflokknum, norður-írska sambandssinnaflokknum sem ver minnihlutastjórn May falli. Tveir af hverjum þremur telja að flokkurinn standi sig illa í að verja hagsmuni Norður-Íra í breska þinginu.

Um 60% svarenda sögðust vilja að samið yrði um sérstakt fyrirkomulag fyrir Norður-Írland þannig að ekki þyrfti að koma upp landamæraeftirliti þar jafnvel þó að það þýði að einhvers konar tollaeftirlit verði á milli Norður-Írlands og meginlands Bretlands.

Þá sögðust 67% styðja að Bretland verði áfram hluti af innri markaði ESB og tollabandalagi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Á sama tíma segist tæplega helmingur Íra fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sameiningu Írlands. Rúmur meirihluti segist myndu greiða atkvæði með sameiningu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×