Íslenski boltinn

Atli Hrafn og Júlíus orðnir Víkingar

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Atli Hrafn og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, í dag
Atli Hrafn og Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, í dag mynd/víkingur
Víkingur hefur fengið þá Atla Hrafn Andrason og Júlíus Magnússon til liðs við félagið fyrir átökin í Pepsi Max deildinni í sumar.

Atli Hrafn kemur til Víkings frá enska knattspyrnufélaginu Fulham, en hann hefur verið á mála hjá Lundúnaliðinu síðan árið 2016 og spilað með varaliði Fulham.

Atli, sem er fæddur árið 1999 og uppalinn hjá KR í Vesturbænum, var á láni hjá Víkingum frá Fulham síðasta sumar og spilaði 11 leiki fyrir Víking í Pepsideildinni.

Júlíus kemur einnig til Víkinga erlendis frá, hann hefur spilað fyrir U21 árs lið Heerenveen í Hollandi síðustu ár. Hann er fæddur árið 1998 og hefur verið fastamaður í U21 landsliði Íslands.

Hann fór frá Víkingum til Hollands árið 2015 en snýr nú heim.

Atli verður löglegur með Víkingi þegar liðið mætir Breiðabliki í Lengjubikarnum á morgun en Júlíus verður ekki kominn með leikheimild í tæka tíð fyrir þann leik. Hans fyrsti leikur verður því líklega gegn Gróttu að viku liðinni.

Víkingur endaði í níunda sæti Pepsideildarinnar síðasta haust og byrjaði riðil 4 í Lengjubikarnum á því að tapa fyrir FH. Víkingar eiga opnunarleik Pepsi Max deildarinnar í vor þegar þeir mæta á Origovöllinn til Íslandsmeistara Vals föstudaginn 26. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×