Erlent

Atkvæðagreiðslu þingsins um Brexit frestað

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Theresa May forsætisráðherra.
Theresa May forsætisráðherra. Chris J Ratcliffe/Getty
Atkvæðagreiðslu breska þingsins um útgöngusamning Bretlands við Evrópusambandið hefur verið frestað. Fyrirhugað var að atkvæðagreiðslan færi fram í næstu viku en Theresa May forsætisráðherra hefur tilkynnt að hún skuli nú fara fram 12. mars. BBC greinir frá þessu.

Áætlað er að Bretland yfirgefi Evrópusambandið þann 29. mars næstkomandi en samningar milli sambandsins og Breta hafa enn ekki náðst. May hefur þó sagt að útganga með samningi geti enn náðst á tilskildum tíma, þrátt fyrir frestunina.

Margir þingmenn, þar á meðal ráðherrar í ríkisstjórn May, hafa hvatt til þess að útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verði frestað en May hefur hins vegar sagt að það leysi ekki þau vandamál sem Bretland stendur frammi fyrir í tengslum við útgönguna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×