Erlent

May býður atkvæðagreiðslu um frestun Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
May gaf þinginu skýrslu um gang útgönguferilsins í dag.
May gaf þinginu skýrslu um gang útgönguferilsins í dag. Vísir/EPA
Hafni breskir þingmenn breyttum útgöngusamningi Theresu May, forsætisráðherra, fá þeir að greiða atkvæði um hvort þeir vilji gangi úr Evrópusambandinu án samnings eða fresta útgöngunni. May tilkynnti þetta í skýrslu sem hún gaf þinginu í dag.

Bretar ætla að ganga úr Evrópusambandinu 29. mars. Þingið hafnaði útgöngusamningi hennar í janúar og hefur hún síðan reynt að tryggja frekari tilslakanir frá sambandinu til að koma honum í gegn fyrir útgöngudaginn.

May lofaði þingmönnum atkvæðagreiðslu um útgöngusamninginn fyrir 12. mars. Í þinginu í dag sagði hún að verði samningurinn felldur láti hún tvær atkvæðagreiðslur fara fram. Sú fyrri væri til að skera úr um hvort þingmenn styðji útgöngu án samnings og færi hún fram 13. mars. Verði meirihluti andsnúinn því verður þingmönnum boðið að greiða atkvæði um að fresta útgöngunni daginn eftir.

„Leyfið mér að tala skýrt, ég vil ekki að 50. greinin verði framlengd. Við ættum að einbeita okkur algerlega að því að ná samningi og ganga út 29. mars,“ sagði May og vísaði til greinar Lissabonsáttmálans um útgöngu ríkja úr Evrópusambandinu.

Benti hún á að yrði útgöngunni frestað fram yfir júní tækju Bretar þátt í Evrópuþingskosningum. Sagði hún það undarleg skilaboð til þeirra sem hefðu greitt atkvæði með útgöngunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Samþykkti þingið að fresta útgöngunni yrði að vera skýrt að aðeins væri um skamma frestun að ræða, ekki lengur en út júní.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×