Erlent

Handtóku grunaðan njósnara á veitingastað í Stokkhólmi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot af vef sænska dagblaðsins Dagens Nyheter. Á myndinni má sjá manninn leiddan út af veitingastaðnum.
Skjáskot af vef sænska dagblaðsins Dagens Nyheter. Á myndinni má sjá manninn leiddan út af veitingastaðnum. Skjáskot/Dagens Nyheter
Lögregla í Svíþjóð handtók karlmann á þriðjudagskvöld sem grunaður er um að hafa stundað njósnir í landinu að tilskipan Rússa.

Í tilkynningu frá sænsku leyniþjónustunni segir að maðurinn starfi hjá sænsku hátæknifyrirtæki og hafi unnið þar með upplýsingar sem vitað er til þess að erlend ríki sækist eftir. Þá leiki grunur á um að rússneskur njósnari, sem starfaði í Svíþjóð, hafi fengið manninn til liðs við sig.

Sænska leyniþjónustan handtók manninn á veitingastað í Stokkhólmi á þriðjudagskvöld og naut við það aðstoðar sænsku lögreglunnar. Sænskir fjölmiðlar hafa birt myndbönd af því þegar lögregla leiddi manninn út af veitingastaðnum en hann hefur ekki enn verið nafngreindur.

Í tilkynningu kemur fram að leyniþjónustan fari nú með rannsókn málsins en talið er að brot hins meinta njósnara nái aftur til ársins 2017. Þá er haft eftir Daniel Senling, yfirmanni hjá sænsku leyniþjónustunni, að síðustu ár hafi aldrei steðjað jafnmikil ógn að öryggi Svíþjóðar og nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×