Viðskipti innlent

Bankasýslan krefst upplýsinga um laun bankastjóra

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íslenska ríkið á 98,2 prósent í Landsbankanum.
Íslenska ríkið á 98,2 prósent í Landsbankanum. VÍSIR/GVA
Bankasýsla ríkisins hefur óskað eftir ítarlegum greinargerðum frá Landsbanka og Íslandsbanka um launamál bankastjóra. Stofnunin fer með 98,2% eignarhlut í Landsbankanum hf. og 100% eignarhlut í Íslandsbanka fyrir hönd ríkissjóðs.

Í upplýsingabeiðni Bankasýslunnar til Landsbankans kemur fram að meðal annars sé óskað eftir sjónarmiðum bankaráðs í tengslum við margumfjallaða launahækkun bankastjórans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur. Mánaðarlaun hennar hækkuðu um 1,7 milljónir króna á milli 2017 og 2018. Það nemur 82 prósent hækkun á tíu mánaða tímabili.

Þetta sjónarmið verði auk þess að vera sett í sérstakt samhengi við eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Í þeirri stefnu komi meðal annars fram áherslur um „hófsemi í launaákvörðunum hjá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins,“ - sem Landsbankinn fellur undir.

Sjá einnig: Bankastjóri Íslandsbanka lækkaði eigin laun

Bankasýslan telur sig að sama skapi ekki hafa fullnægjandi upplýsingar um launaþróun bankastjóra Íslandsbanka. Því kallar stofnunin eftir upplýsingum frá stjórn bankans um nákvæma þróun laun og annarra hlunninda bankastjórans frá og með 1. janúar 2016 til dagsins í dag.

Auk þess er krafist afstöðu stjórnarinnar til umræddrar launaþróunar - aftur með tilliti til eigendastefnu ríkisins. Þá spyr Bankasýslan hvort fyrirhugað sé að endurskoða launakjör bankastjórans á næstu misserum, til dæmis vegna samningsbundinna ákvæða ráðningarsamnings hans.

Bankarnir hafa til 19. febrúar næstkomandi til að verða við fyrirspurnum Bankasýslunnar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×