Viðskipti innlent

Hagnaður Regins dróst saman um fimmtán prósent

Samúel Karl Ólason skrifar
Helgi S Gunnarsson, forstjóri Regins.
Helgi S Gunnarsson, forstjóri Regins. Fréttablaðið/Valli
Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 3,2 milljarða króna á síðasta ári en það er 15 prósentum minna en árið 2017. Leigutekjur félagsins hækkuðu þó um 17 prósent og rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 5,4 milljarðar og jukust um 19 prósent á milli ára.

Hagnaður á hlut var 1,87 en árið 2017 var hann 2,41. Í tilkynningu segir að afkoman hafi verið „góð og í samræmi við væntingar“. Þá hafi mikil árangur náðst í að hagræða hjá félaginu og stjórnendur telja horfur í rekstri góðar.

Stjórnin leggur þó til að ekki verði greiddur út arður fyrir árið 2018. Félagið er skráð í Kauphöll Íslands hf. (NASDAQ OMX Iceland), fjöldi hluthafa í árslok 2018 voru 523 samanborið við 650 í árslok 2017.

Skuldir félagsins voru 90,9 milljarðar króna, samanborið við 64,9 árið 2017. Þá hækkaði verðmæti eigna Reginn úr 99,5 milljörðum í 132,9 milljarða. Virði fjárfestingareigna í lok síðasta árs var 128,8 milljarðar króna. Eigið fé var 42 milljarðar króna en árið 2017 var það 34,7 milljarðar.

Fasteignasafn Regins telur 119 fasteignir á Íslandi og heildarfjöldi fermetra í einkasafni félagsins 368.903.

Frekari upplýsingar má finna hér á fjárfestavef Regins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×