Sport

Svekktur en um leið sáttur

Hjörvar Ólafsson skrifar
Baldur Vilhelmsson dreymir um að komast á VetrarÓL.
Baldur Vilhelmsson dreymir um að komast á VetrarÓL. Mynd/ Christian Christiansen
Baldur Vilhelmsson hefur staðið í ströngu síðustu daga en hann hefur keppt á Vetrar­ólympíuhátíð Evrópuæsk­unnar á snjóbretti. Mótið er haldið í Bosn­íu.

Baldur keppti annars vegar í Slope-style fyrr í vikunni og hafnaði þar í 10. sæti og svo í Big air þar sem hann hafnaði í fjórða sæti í gær. Baldur var svekktur yfir að hafa ekki náð betri frammistöðu í úrslitum í Slope-style og svo að ná ekki að að gera örlítið betur og komast á pall í Big air.

„Þetta hafa verið misjafnir dagar en heilt yfir er ég mjög ánægður. Ég náði ekki að lenda nógu vel í úrslitunum í Slope-style og þar spilaði stress inn í. Það vantaði svo bara þrjú stig til þess að tryggja mér bronsverðlaun í Big air. Það er ofboðslega svekkjandi að hafa ekki náð að vinna til verðlauna en ég er aftur á móti sáttur við frammistöðuna á mótinu,“ segir Baldur í samtali við Fréttablaðið.

Baldur, sem er 16 ára gamall, flutti til Noregs í haust þar sem hann leggur stund á nám í framhaldsskóla og getur auk bóklegs náms einbeitt sér að æfingum sínum á snjóbretti.

„Þetta er algjörlega frábært og aðstæður þarna til snjóbretta­iðkunar eru miklu betri en heima. Þetta eru algjörar kjöraðstæður og ég er bara eiginlega að lifa drauminn minn. Þarna get ég verið á fullu á snjóbrettunum og haldið áfram að bæta mig. Ég er að fíla mig mjög vel í Noregi og ég hef bætt mig mjög mikið síðan ég kom þangað. Planið er að halda þeirri þróun áfram.“

„Á þessu móti sem ég var að keppa á í vikunni voru allir sterkustu snjóbrettakappar Evrópu í þessum aldursflokki. Þannig að þetta var gott mót til þess að sjá hvar ég stend gagnvart þeim. Það vantaði ekki mikið upp á að vinna verðlaun eins og ég sagði áðan og það er gaman að sjá það,“ segir Baldur.

„Næsta verkefni hjá mér er Evrópubikar ungmenna í mars og þar á eftir heimsmeistaramót unglinga síðar á þessu ári. Langtímamarkmiðið er svo að komast á Vetrar­ólympíuleikana sem haldnir verða í Peking í Kína árið 2022 og standa mig vel þar. Síðustu dagar hafi verið góð æfing í þeim undirbúningi. Ég er ánægður með hvernig þróunin hefur verið hjá mér og það er geggjað að vita að ég sé jafn góður og þeir bestu í Evrópu. Nú er bara að ná mér í meiri reynslu og minnka stressið í næstu keppnum,“ segir hann um framhaldið hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×