Skoðun

Dagskrárvald í umhverfismálum

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Stundum er talað um það hversu ólíkir flokkar Sjálfstæðisflokkur og VG séu. Það má vissulega til sanns vegar færa, þótt við hin eigum stundum erfitt með að koma auga á muninn, til dæmis varðandi auðlindagjald.

Munurinn er meðal annars þessi: Sjálfstæðismenn myndu aldrei samþykkja að Andri Snær Magnason yrði forstjóri Landsvirkjunar en þingmenn og ráðherrar VG láta sér vel líka að Jón Gunnarsson skuli orðinn að formanni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Rétt eins og Andri Snær er nokkurs konar persónugervingur umhverfisverndarsinna á Íslandi er Jón Gunnarsson í hugum margra eindregnasti stóriðjusinni landsins, svarinn andstæðingur umhverfisverndarsjónarmiða gegnum tíðina. Hann hefur um árabil verið ódeigur að stíga fram fyrir skjöldu og berjast fyrir því sem hann kallar „nýtingarstefnu“. Hann er lítill talsmaður ósnortinnar náttúru en þeim mun hrifnari af „snortinni“ náttúru, manngerðum stöðum í náttúrunni; talar til dæmis í blaðagrein frá árinu 2008 um Bláa lónið og Kárahnjúkavirkjun sem helstu náttúruperlur landsins – nefnir reyndar Hellisheiði í þingræðu árið 2009 í þessu samhengi líka, sem vinsælan ferðamannastað, þó ekki verði sjálfsagt margir til að deila aðdáun hans á röraferlíkjunum þar. Árið 2011 stakk Jón upp á því að leggja niður umhverfisráðuneytið og hafa um málefni þess deildir í „atvinnuvegaráðuneytunum“. Hann hefur ítrekað viljað breyta rammaáætlun. Hvalveiðar eru honum beinlínis hjartans mál.

Formenn fastanefnda Alþingis geta haft mikil völd og eins og áformin um vegaskatta sýna er Jón seigur að koma hugðarefnum sínum á dagskrá. Og nú hafa þau í VG afhent Jóni Gunnarssyni dagskrárvaldið í umhverfismálum á Alþingi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×