Erlent

Bernie Sanders býður sig fram til forseta á ný

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bernie Sanders.
Bernie Sanders. Getty/Mark Wilson
Bernie Sanders, óháður öldungardeildarþingmaður og sá sem lenti í öðru sæti í forkosningum Demókrata fyrir forsetakosningarnar árið 2016, mun bjóða sig á ný fram til forseta í forkosningum Demókrata sem framundan eru.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Sanders sendi frá sér í dag. Sanders er 77 ára gamall og vakti mikla athygli er hann háði harða baráttu við Hillary Clinton um hver yrði frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum árið 2016.

Í fyrstu þótti Sanders ekki eiga mikla möguleika gegn Clinton en stefnumál hans á borð við fría háskóla, fimmtán dollara lágmarkslaun og heilbrigðisþjónustu fyrir alla Bandaríkjamenn unnu hylli margra Demókrata. Það var þó ekki nóg til að sigra Clinton sem á endanum tapaði fyrir Donald Trump í forsetakosningunum.

Sanders þykir fyrirfram vera sigurstanglegur í forkosningum Demókrata enda er hann langþekktastur þeirra sem tilkynnt hafa um framboð sitt. Þá nýtur hann einnig góðs af því að hafa farið langt í síðustu forkosningum.

Meðal þeirra sem hafa boðið sig fram í forkosningum Demókrata eru Kamala Harris, Cory Booker, Julian Castro, Elizabeth Warren og Kirsten Gillibrand.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×