Innlent

Drógu stærðarinnar sokk úr þörmum sjúklingsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sokkurinn reyndist engin smásmíði.
Sokkurinn reyndist engin smásmíði. Mynd/Dýralæknamiðstöðin Grafarholti
Slappur labradorhundur fékk bót meina sinna á Dýralæknastöðinni í Grafarholti í dag en orsök slappleikans var sokkur sem hvutti hafði gleypt.

Greint er frá þessu í færslu Dýralæknamiðstöðvarinnar á Facebook. Þar segir að hinn „ljúfi og góði“ labradorhundur hafi verið orðinn lystarlaus og ekki haldið neinu niðri. Eftir rannsóknir var ákveðið að skera sjúklinginn upp og fannst stærðarinnar sokkur í þörmum hans, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Þá var einnig komið með kött í sambærilegum vandræðum á Dýralæknamiðstöðina í dag en sá hafði gleypt leikfangabyssuskot úr svokallaðri Nerf-byssu. Slík skot verka líkt og „tappi í þarminn“, að því er segir í færslu stöðvarinnar, og því var ákveðið að skera kisuna upp.

Dýralæknar Dýralæknamiðstöðvarinnar í Grafarholti benda gæludýraeigendum því á að hafa auga með dýrum sínum.

„Við viljum minna alla gæludýraeigendur á að passa vel upp á smáhluti og föt í kringum dýrin, en einnig að vera vakandi fyrir einkennum um fastan aðskotahlut, en þau eru sérstsklega uppköst, lystarleysi, slappleiki og að halda engu niðri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×