Enski boltinn

Vilja sjá Arsenal í „super bowl fótboltans“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Getur Emery komið Arsenal alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar?
Getur Emery komið Arsenal alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar? vísir/getty
Eigendur Arsenal vilja sjá Unai Emery koma Arsenal í „superbowl fótboltans,“ úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Stan Kroenke er eigandi Arsenal og hann á einnig Los Angeles Rams sem mun spila um ofurskálina eftirsóttu, stærsta titilinn í amerískum fótbolta.

Sonur Kroenke, Josh, er framkvæmdarstjóri Arsenal og hann sagði frá áætlunum um að koma meira samstarfi á milli liðanna tveggja. Emery mun meðal annars vinna með Sean McVay, þjálfara Rams, en McVay er yngsti aðalþjálfarinn í sögu NFL deildarinnar sem kemst í leikinn um ofurskálina.

„Ég held að hann [Emery] og Sean passi mjög vel saman og það hvernig þeir bera sig í daglegum störfum er mjög svipað,“ sagði Josh Kroenke við breska blaðið Telegraph.

„Þeir fara yfir mikið af tölfræði, eru mjög virkir á æfingasvæðinu og þeir eru með svipaðan stíl, þrátt fyrir að vera sitthvorum enda hnattarins.“

Arsenal er ekki í Meistaradeildinni þetta tímabilið. Liðið er hins vegar komið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar og fari það alla leið og vinni þann bikar þá er Meistaradeildarsætið á næsta tímabili tryggt. Eins og er situr Arsenal í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar en er þó í harðri baráttu við Chelsea og Manchester United.

Rams spilar í leiknum um ofurskálina í fyrsta skipti í sautján ár á sunnudagskvöld þar sem þeir mæta Tom Brady og félögum í New England Patriots. Leikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst upphitun klukkan 22:00 á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×