Erlent

Hlaupari kyrkti fjallaljón

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá 1990 hafa fjallaljón ráðist sextán sinnum á menn á svæðinu svo vitað sé.
Frá 1990 hafa fjallaljón ráðist sextán sinnum á menn á svæðinu svo vitað sé. Getty/Wolfgang Kaehler
Maður sem var að hlaupa eftir vinsælum slóða í fjöllum Colorado í Bandaríkjunum, drap fjallaljón sem réðst á hann með því að kyrkja það. Ungt ljón réðst aftan að manninum en hann mun hafa snúið sér við um leið og ljónið stökk á hann. Starfsmenn þjóðgarða Colorado sögðu frá þessu á dögunum.

Maðurinn hlaut alvarleg sár á andliti og höndum en á einhvern hátt tókst honum að verja sig og kyrkja fjallaljónið, sem var þó ungt og karlkyns. Dýrið var krufið og staðfesti það frásögn mannsins.



Eftir árásina tókst manninum að ganga til byggða og keyra til næsta sjúkrahúss. Hann hefur ekki verið nafngreindur.

 

„Skokkarinn gerði allt sem hann gat til að bjarga lífi sínu. Ef ljón skyldi ráðast á ykkur þurfið þið að gera allt sem í valdi ykkar stendur til að berjast gegn ljóninu, eins og þessi herramaður gerði,“ hefur CBS Denver eftir Mark Leslie, yfirmanni þjóðgarðsins sem um ræðir.



Þá hafði maðurinn nýverið lesið leiðbeiningar um hvernig verjast ætti árásum fjallaljóna og gat hann notað þær upplýsingar.

Starfsmenn þjóðgarðsins segja afar sjaldgæft að fjallaljón ráðist á menn. CBS segir sextán árásir hafa átt sér stað á svæðinu frá 1990 og í þeim hafi þrír látið lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×