Innlent

Mögu­legt að heita vatnið skili sér ekki í laugarnar á föstudag

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Laugardalslaug.
Frá Laugardalslaug. vísir/gva
Spáð er áframhaldandi frosti næstu daga og gæti komið til skerðinga á afhendingu á heitu vatni til stærri notenda Veitna á föstudag, meðal annars sundlauga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum. Þar segir að rennsli í hitaveitukerfi Veitna á höfuðborgarsvæðinu hafi haldið áfram að aukast í nótt. „Jafnaðarrennslið nemur um 16.400 rúmmetrum þá klukkutíma sem notkunin er mest. Megin skýringin er aukin kynding húsa og varmatap úr þeim vegna kuldans.“

Viðbragðsáætlun

Veitur hafa virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna kuldakastsins, en metnotkun mældist á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu í gær.

„Veitur hvöttu fólk í gær til að fara vel með heita vatnið og huga að því hvort hugsanlega sé vatni sóað á heimilum þess eða vinnustöðum. Um 90% af hitaveituvatninu eru notuð til húshitunar. Fólk getur sparað heitt vatn og þar með kyndikostnað sinn með því að gæta að því að gluggar séu ekki opnir og útidyr ekki látnar standa opnar lengur en þörf er á. Þá skipta einnig máli stillingar ofna – að óþarflega heitt vatn renni ekki frá þeim – og að ofnarnir séu ekki byrgðir, til dæmis með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum. Þá eru heitir pottar við heimili talsvert þurftafrekir á vatnið,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×