Erlent

Kamala Harris býður sig fram til forseta Bandaríkjanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kamala Harris hefur vakið athygli fyrir harða andstöðu gegn Donald Trump.
Kamala Harris hefur vakið athygli fyrir harða andstöðu gegn Donald Trump. AP/Saul Loeb
Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn Kamala Harris tilkynnti í dag að hún bjóði sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hinn 54 ára gamli demókrati hefur þótt ein helsta vonarstjarna demókrata undanfarin ár.

Harris er öldungardeildarþingmaður fyrir Kaliforníu-ríki og hefur verið einn helsti gagnrýnandi Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, frá því að hann tók við völdum árið 2017. Harris tilkynnti um framboðið í sjónvarpsþættinum Good Morning America á ABC samhliða tilkynningu á samfélagsmiðlum hennar.

„Framtíð landsins okkar veltur á því að þú og milljónir annarra gefi okkur tækifæri til þess að berjast fyrir bandarískum gildum,“ sagði Harris. „Það er ástæðan fyrir því að ég býð mig fram til forseta Bandaríkjanna.“

Harris hefur á undanförnum mánuðum legið undir feldi og íhugað hvort hún ætti að taka slaginn en búist er við að margir verði um hituna í forkosningum Demókrata fyrir forsetakosningarnar. Meðal þeirra sem þegar hafa tilkynnt um forsetaframboð eru Julian Castro, fyrrverandi borgarstjóri San Antonio og John Delaney, fulltrúadeildarþingmaður frá Maryland.

Þá er fastlega gert ráð fyrir að öldungardeildarþingmennirnir Kirsten Gillibrand og Elizabeth Warren muni bjóða sig fram en þær hafa báðar tilkynnt að þær séu að skoða framboð. Líklegt þykir að Joe Biden, varaforseti Barack Obama á árunum 2009-2017 muni bjóða sig fram.

Harris þykir fyrirfram eiga góða möguleika á því að hljóta útnefningu Demókrata en samkvæmt greiningu tölfræðisíðunnar FiveThirtyEight er hún líklegust til þess að höfða mest til helstu lykilhópa stuðningsmanna Demókrata.

Yrði Harris kjörinn forseti árið 2020 myndi það marka tímamót í Bandaríkjunum. Þá yrði hún fyrst kvenna kjörin forseti Bandaríkjanna auk þess sem hún yrði fyrsti forsetinn af asísku bergi brotin en foreldrar hennar eru innflytjendur frá Jamaíka og Indlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×