Skoðun

Að barma sér

Haukur Örn Birgisson skrifar
Ég var eitt sinn staddur á hóteli í Svíþjóð þar sem megnið af herbergjunum hafði verið leigt af moldríkum Bandaríkjamanni. Blessaður maðurinn var víst eitthvað viðkvæmur fyrir nekt og hafði því beðið hótelið um að hylja öll málverk sem bæru slíkan ófögnuð. Hvít blöð voru límd yfir geirvörtur verkanna svo maðurinn gæti gengið öruggur um gistirýmið, laus við klámið. „Að hótelið skuli láta þetta eftir honum,“ sagði einhver gestur og við hin hlógum að vitleysunni.

Ég hélt að þessi maður væri orðinn viðskiptavinur Seðlabankans þegar ég las fréttir síðustu viku. Málverk eftir Gunnlaug Blöndal, einn af meisturum íslenskrar myndlistar, hafa nú verið fjarlægð þar sem þau sýna kvenmannsbrjóst. Starfsmaður mun hafa kvartað.

Stundum finnst mér eins og ég sé staddur í Fóstbræðraþætti. Fórnarlambavæðingin er í herskárri sókn og alltaf kemur einhver vitleysa sem toppar þá fyrri. Þeir sem fara með ákvörðunarvaldið þora ekki öðru en að elta ruglið til að sýna meintum „þolendum“ nærgætni.

Við hringsnúumst í rétttrúnaðarruglinu og vitum ekki í hvorn fótinn skal stíga. Einn daginn missum við okkur yfir því að sundlaugarvörður vísi berbrjósta konu úr lauginni eða kvartað sé yfir brjóstagjöf á almannafæri. Þá spretta fram hálfnaktar konur, arkandi að Austurvelli undir slagorðinu FreeTheNipple. Næsta dag eru klassísk málverk fjarlægð af veggjum opinberra stofnanna. Það er vandlifað.

Á tímum sem þessum leitar hugur manns til starfsmanna Louvre-safnsins, sem hljóta að líða vítiskvalir innan um kviknaktar marmarastyttur Forn-Grikkja og klámfengin málverk Picasso. Rétt væri að setja þetta allt ofan í geymslu, áður en tjón hlýst af.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×